Monday, January 28, 2013

Dagur # 27 *fylltur kjúlli*

*Fylltur kjúklingur*

Þessi uppskrift kom til mín á leiðinni í Bónus eftir vinnu. Kallinn bað um að það yrði kjúlli en mig langaði ekkert sérstaklega í tilbreytingarlausan kjúlla steiktan á pönnu með sætum kartöflum (sem er að sjálfsögðu líka gott) en mig vantaði eitthvað meira djúsí í þetta skiptið .. úr því varð þessi uppskrift!!

4.kjúklingabringur
1 poki spínat
2 sætar kartöflur
1 krukka fetaostur
1 stk mexíkóostur
25-30 gr furuhnetur
Krydd (ég notaði sjávarsalt, pipar og mexican chili)
Olía til steikingar

Ég byrjaði á því að skera niður sætu kartöflunar og krydda með sjávarsalti, pipar, mexican chili, papriku og timian ásamt því að velta þeim upp úr olíu. Skellti þeim svo inní ofn á 200°C


Næst tók ég kjúklingabringurnar, skar inní þær og fyllti með mexíkóosti, kryddaði með sjávarsalti, pipar og mexican chili. Setti þær svo á pönnu og leyfði þeim að eldast í sirka 10 mín með lokinu á. 


Setti allt spínatið í eldfast mót eins og þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan, setti svo kjúllan ofaná spínatið, hellti krukku af fetaosti yfir ásamt furuhnetunum. Þetta fór svo inní ofn, 200°C í 30 mín (fer eftir því hvað kjúllinn er eldaður áður en hann fer inn)


Ég leyfði sætu kartöflunum að vera inni mest allan tímann sem kjúllinn var inni, tók þær út þegar það voru sirka 5 mín eftir af tímanum.

Volá :)
Er að æfa mig að borða minni skammta og þess vegna borðum við með kökudiskum. Ég veit að þetta er alls ekki hitaeiningasnauðasti matur sem til er en á móti kemur að 1 bringa er meira en nóg. Ég kláraði 3/4 af bringunni og Aron var alveg pakkaður eftir heila bringu. 


Saturday, January 26, 2013

Dagar # 24- # 25 *mega-kjötbollur*

Vá ég er búin að vera spennt að blogga um kvöldmatinn minn í kvöld .. ég er ennþá eftir mig þetta var svo gott! :D haha ..
Það þarf ósköp lítið til að gleðja mitt litla hjarta.

En við skulum bara skella okkur í þetta .. Ég fann uppskriftina í "Heilsuréttir fjölskyldunnar" sem er snilldar bók by the way ;)

Rétturinn heitir því látlausa nafni Kjötbollur með hvítlauk og basilíku.

Fyrir 4.

700 gr nautahakk (hreint hakk)
250 gr blandaðar hnetur/möndlur (ég notaði 100 gr möndlur, 100 gr heslihnetur og 50 gr kasjúhnetur)
3-4 hvítlauksgeirar
1/2 búnt fersk basilíka
1/2 tsk paprikuduft
Svartur pipar eftir smekk
Sjávarsalt eftir smekk
2. egg
2-3 msk kókosolía eða jómfrúarolía til steikingar.

Aðferð:

 Hnetur og möndlur hakkaðar í duft með matvinnsluvél/töfrasprota

 Hvítlaukur og basilíka maukað á sama hátt

Öllu blandað saman í skál.
-hakk
-möndlur/hnetur
-hvítlaukur + basilíka
-egg
-krydd
-ég bætti við smá osti
-næst ætla ég að bæta við jalapenjo

Ef þið eigið góða hrærivél þá er hægt að skella þessu í hana og blanda þessu þannig mjög vel saman (mælt með því í bókinni) en þar sem að ég á ekki hrærivél (er ekki búin að gifta mig sjáiði til ;)) þá klessti ég þessu bara öllu saman með hreinum puttum!
Svo er bara að rúlla þessu í bollur sem eru svona sirka eins og golfkúlur, þessar passa passlega inní lófann á mér (er með svolldið litlar hendur)

Síðan er bara að skella olíunni á pönnuna og steikja bollurnar létt á báðum hliðum eða þangað til að þær eru orðnar gylltar og stökkar á þeim hliðum sem voru á pönnunni. Hér þarf ekki að elda þær alveg í gegn vegna þess að við tökum bollurnar og setjum þær á bökunarplötu og inn í ofn á 200°C í 10 mín og þá eldast þær alveg í gegn. Mínar voru reyndar í 10 mín á 200°C og 5 mín á 250°C

Á meðan ég stússaðist í þessu þá var ég búin að setja heilhveiti-spaghetti í pott og leyfði því að malla á meðan. 

Þegar bollurnar fóru inní ofn hellti ég vatninu af spaghetti-inu og setta lífræna pastasósu með hvítlauk og basilíku (frá sollu) útá spaghettiið. 

Þá lítur þetta svona út á disknum :

Ég er ekkert að grínast með hvað mér fannst þetta gott .. er ógeðslega spennt að borða afgangana á morgun! :D 

Þá er bara komið að þér að prófa! :D .. mæli með að gera stóra uppskrift til að allir geti borðað að vild og algjör snilld að eiga svona í nesti/afganga.

Kvöldið mitt var/er mjög rólegt .. horfði á undankeppnina fyrir Eurovision og bjó til helgar-nammið mitt.

Þetta mun vera kakó að hætti Ebbu með alíslenskum yndislegum rjóma :)

Þetta er mega einfalt
1 dl vant
3-4 msk lífrænt hreint kakó
2-3 msk pálmasykur/óunninn hrásykur/lífrænt hunang (ég nota lífrænt hunang)
1/2 tsk vanilluduft eða dropar (má sleppa) (ég nota dropa)
1/2 l lífræn mjólk eins og hver vill (ég nota léttmjólk)

Vatni, kakó og sætu er blandað saman rólega yfir vægum hita þar til allt hefur leyst upp og samlagast. Þá er 500 ml af mjólk bætt útí og hitað að 40°C.
Svo er bara að þeyta íslenskan rjóma og skella útá! *slurp*

Þá er það ekki lengra í dag .. þangað til næst!







Thursday, January 24, 2013

Dagur # 23

Hæhæ .. laaaaangur dagur að kveldi kominn! Mikið svakalega er gott að koma heim og slappa af í friði og ró :)

Ég get nú sagt ykkur það kæru lesendur að ég átti virkilega erfitt kvöld í vinnunni .. mig langaði SVOOOO MIIIKIÐ í nammi!! .. ég var nánast fallin! Ég var með eeendalaust craving í bara eitthvað þótt að ég væri ekki svöng og ég varð geðveikt bitur að ég gæti ekki bara fengið mér nammi. Fékk mér appelsínu en það dugði ekki til .. mig langaði bara í nammi og köku og súkkulaði og köku og nammi! Ég hugsaði oft AFHVERJU ER ÉG AÐ STANDA Í ÞESSU!!
VÁ!
Ég hélt þetta út og er komin heim á sælgætislaust heimili .. fjúff!

Annars langaði mig að deila með ykkur hluta af hádegismatnum mínum .. ég get lifað á þessu!

Þetta mun vera
1 dós kotasæla
1 dós túnfiskur
Soðin egg
Pipar - Paprikukrydd - Mexican Chili
Öllu klesst vel og vandlega á heilkorna hrökkbrauð! NAMM NAMM NAMM!

Kvöldmaturinn var svo upphituð kjúllasúpa frá því í gær .. svo ógeðslega góð!

Nú ætla ég bara að fara að lúlla til þess að þetta hræðilega kvöld verði loksins að enda og vakna núllstillt í fyrramálið!

 Áfram ég! :D


Wednesday, January 23, 2013

Dagur # 22 *kjúllasúpa*

Súper góður kvöldmatur í kvöld!

Kjúllasúpa (mixuð saman úr ýmsum uppskriftum)

4 kjúllabringur
1 rauðlaukur
3 hvítlauksgeirar
1/2 sæt kartafla
6 sveppir
1 rauð paprika
1 grænt epli
1 dós hakkaðir tómatar
1,5 l vatn
1 grænmetisteningur
1 dolla sweet chili rjómaostur (philadelphia)
Dass af kryddum: svartur pipar, salt, paprikukrydd, cayenne-pipar, mexican chilli. oreganó, kóríander

Rauðlaukur og hvítlaukur steiktur í potti með dass af olíu. Restinni af grænmetinu sett útí og rétt hitað þá er vatninu, tómötunum og kryddinu bætt við. Kjúllinn léttsteiktur á pönnu og bætt útí. Súpan látin krauma og ef þið notið rjómaost þá er hann settur í restina. Súpan verður bara betri eftir því sem hún fær að sjóða lengur svo það fer bara eftir hvað þú hefur langan tíma hvað þú lætur hana sjóða lengi. 
Heildareldunartími hjá mér var um klukkutími.

Það er hægt að leika sér svo ótrúlega mikið með súpur og hægt að setja hvað sem manni lystir í hana! :)

Fór í massífan spinningtíma í hádeginu .. þegar ég asnast í spinning þá fatta ég hvað ég er í lélegu formi :( .. gleymdi líka pússtinu mínu (er með áreynsluastma) þannig að ég var orðin alveg fjólublá í framan eftir tímann!

Stefni á 45 mín spinning í fyrramálið .. eins gott að ég nái að vakna .. þess vegna er ég líka að fara að sofa .. bráðum! ;)

 
Það er sárt hvað þetta er satt!!!

Tuesday, January 22, 2013

Dagar # 16 - # 21

Jææja .. ég var svona að spá, vantar ykkur ekkert fleiri tíma í sólahringinn?? Mig vantar sjúúúklega fleiri tíma .. ég kemst alls ekki yfir allt á hverjum degi sem ég þarf að gera!

  • Skóli
  • Ræktin
  • Vinna
  • Læra
  • Elda
  • Halda heimili
  • Sofa
  • Blogga
Það er bara ekki hægt að deila þessu jafnt á þessa 17 klukkutíma sem ég er vanalega vakandi. Þess vegna hafið þið kæru lesendur setið svolítið á hakanum síðustu daga því það er alveg massíft mikið að gera hjá mér.

Passaði tvær yndislegar frænkur um helgina ..
Þær gistu hjá okkur frá laugardegi til sunnudags og það gekk bara rosalega vel. Ég eldaði handa þeim ljúffengan spaghetti-bolognese (alltaf öruggt að gefa krökkum spaghetti) úr Latarbæjarbókinni hennar Ebbu .. að sjálfsögðu með heilhveitispaghetti.
Þær borðuðu eins og enginn væri morgundagurinn! :)

Á sunnudaginn bakaði ég svo hollustu-vöfflur handa þeim í hádegis/kaffitíma og þurftum við næstum því að stoppa þær því þeim fannst þetta svo gott. Þetta er raun bara hollt-brauð sem er bakað í vöfflujárni. Ég baka þetta næst bara eins og skonsur býst ég við.

400 g heilhveiti (gróft spelt)
1 tsk sjávarsalt
2 tsk kardimommuduft/ eða 1-2 tsk sítrónudropar, vanilludropar eða möndludropar (ég notaði vanilludropa)
2-3 egg
30-40 g kaldpressuð ólífuolía eða brætt smjör (ég notaði olíu)
7 dl mjólk (má setja á móti 300-400 ml af volgu vatni)

Þessu er síðan bara öllu blandað saman og steikt hvort sem það er á pönnu eða í vöfflujárni.

Á laugardaginn .. 
 tók ég massífa æfingu .. ég tók 60 mín lyftingaæfingu og fór svo 90 mín hot yoga! Shitt það var kannski aðeins of mikið en þar sem ég komst ekki í ræktina á föstudeginum þá þurfti ég að bæta það upp. Veit ekki hvort að ég geri þetta aftur en það er aldrei að vita.

Í gær .. 
eldaði ég rauðsprettu í sesam-kókosraspi (eins og kjúllinn um daginn) með sætum kartöflum og venjulegum kartöflum inní ofni með fullt af kryddi!






NAMM NAMM NAMM .. Rauðspretta er án efa besti fiskurinn! *slurp* uppskriftina getið þið fundið hér

Svo má nú ekki gleyma því hvað ég gerði í vinnunni í gær .. það var smiðja hjá okkur fyrir krakka á aldrinum 10-12 ára og buðum við uppá brjóstsykursgerð! JÁ ég þurfti að þrauka í 2 klukkutíma við að mixa saman brjóstsykra fyrir sykuróð börn ÁN þess að smakka sjálf! Hefði ekki hatað að stinga einum lakkrís-salmíak brjóstsykri uppí mig. Ég hafði ekki undan að kyngja niður munnvatni .. það var eins og munnvatnskirtlarnir hefðu fengið borgað fyrir þessa ofurframleiðslu en ég stóðst þessa raun og fékk mér ekki neitt. VÍJJ!

Hér getiði séð eina sykurblöndu (ef þið þekkið ekki hvernig brjóstsykursgerð fer fram) .. þessu er síðan blandað alveg saman og krakkarnir fara svo í það að búta þetta niður í litla brjóstsykra.

Jæja segjum þetta gott í bili ..


Wednesday, January 16, 2013

Eggjabaka

Ég var beðin um að setja inn uppskriftina að eggjabökunni sem ég var með á mánudaginn ..

Eggjabaka fyrir 2

Píska saman í skál
  • 10 eggjahvítur
  • 4 eggjarauður
  • 1 dl mjólk
Skera niður
  •  Rauðlauk
  • Papriku
  • Gúrku
  • Chili
  • Sveppi
  • Blómkál
Setja skorna grænmetið saman við eggjablönduna .. kryddað með chili og svörtum pipar. Hellt í eldfast mót og hitað í ofni þangað til tilbúið. 
Borið fram með salati.

 Ég tek ekkert credit fyrir þennan rétt, þetta er frá Telmu þjálfara www.fitubrennsla.is

Dagur # 14 og # 15

Voruði búin að sakna mín? ;)

Það er alveg smá strembið að hafa tíma fyrir allt sem ég er að gera í lífinu á sama tíma svo stundum þarf bloggið að sitja á hakanum þegar bugunin bankar að dyrum!

Í gær var þriðjudagur .. það gerðist nákvæmlega ekkert merkilegt !
  • Vaknaði um 7 leytið
  • Skóli kl 8
  • Ræktin kl 10
  • Skóli kl 12:30
  • Vinna kl 13:30
  • Komin heim kl 22:45
  • Komin uppí rúm 23:30
Þarf hafið þið það! .. Mér tókst að borða ágætlega yfir daginn en tók afgangs-súpu með mér í kvöldmatinn til að borða í vinnunni og njaaa hún var ekki góð 3 kvöldið í röð!
Ég er s.s vinna í félagsmiðstöð með krakka frá 10-16 ára .. á daginn bjóðum við 10-12 ára krökkum að kíkja uppí skóla og leika sér í íþróttasalnum o.fl og svo á kvöldin (þri og fim) eru 13-16 ára krakkarnir velkomnir .. þið kannist kannski við þetta frá því að þið voruð yngri eða ef þið eigið börn sem stunda félagsmiðstöðina í sínu hverfi. Tilgangurinn með þessum upplýsingum er sú að krakkar í dag eru sælgætissjúkir! Það er sjoppa í félagsmiðstöðinni sem selur sælgæti sem krakkarnir geta keypt þegar þau mæta á kvöldin en við erum ekki með sjoppu fyrir yngri krakkana (10-12 ára).
.. Vaktin mín byrjaði s.s með 10-12 ára krakkana og þrátt fyrir að við séum að reyna að sporna gegn sælgætisáti hjá þessum krökkum með því að vera ekki með sjoppu þá mæta þau bara sjálf með fulla nammipoka. Eftir að 10-12 ára starfið var búið var komið að því að vera með 13-16 ára krökkunum og þau eru ekkert að spara nammiátið! My point .. ég þarf að komast í gegnum 9 klst vinnudag með sælgætisangann í nösunum FML það er ógeðslega erfitt. Það tókst by the way ;)

Þegar ég kom heim var ég alveg búin á því eftir þessa baráttu við sælgætispúkann á öxlinni og fór bara beint uppí rúm að sofa!

Í morgun vaknað ég á sama tíma og vanalega og fékk mér lífræna AB mjólk með frosnum blönduðum berjum í morgunmat .. já það var smá súrt ef þið voruð að pæla í því :)
Svo var það bara skóli skóli skóli og vinna vinna vinna .. þegar ég kom heim fór ég að glugga í matreiðslubókina Heilsuréttir fjölskyldunnar og fann þar snilldar kvöldverð sem ég var með í kvöld!

Steiktur kjúlli í sesamkókosraspi og sætar kartöflur.
Þetta er s.s upphaflega uppskrift fyrir þorsk eða steinbít en þar sem að ég fann ekki girnilegan fisk í búðinni þá prófaði ég bara að dulbúa kjúlla ..

Þetta er frekar basic!
  • Ég skar 3 kjúklingabringur niður, hver bringa í 6 bita
  • Blandaði saman kókosmjöli (4 dl) og sesamfræjum (2 dl) í eina skál og pískaði 2 egg í aðra skál
  • Tók kjúllabitana og bleytti þá upp úr egginu og svo beint í sesam-kókosraspinn.
  • Hitaði kókosolíu á pönnu og steikti kjúllan þangað til að raspurinn var orðinn gylltur
  • Setti kjúllan svo í eldfast mót og leyfði honum að vera inní ofni í 10-15 mín (er ekki viss með tímann, ég fylgdist bara með honum)
     
Með þessu var ég svo með sætkartöflufranskar
  • Skrældi 2 sætar kartöflur
  • Skar þær í strimla eins og franskar
  • Velti þeim upp úr jómfrúarólífuolíu, chillikryddi, salti og pipar
  • Setti franskarnar svo á bökunarpappír á ofnplötu og inn í ofn á 180°c í 20-30 mín
Smá kínakál og gúrka með! Gourm

Á klárlega eftir að prófa þetta á fisk næst .. algjör snilld :D

Spinning í fyrramálið .. úff!

Monday, January 14, 2013

Dagur #12 og # 13

Sunnudagur ..
Það var ekki sofið út þennan sunnudaginn, ég vaknaði um 9 leytið með systkinum mínum sem gistu hjá mér. Þá var skellt í hafragraut og viti menn .. krakkarnir  borðuðu hann! Bróðir minn var samt ekkert rosalega spenntur :)

Skellti mér á brettið seinnipartinn og hlóp 8 km ásamt því að gera 3 umferðir af 20 hnébeygjum, 10 armbeygjum, 20 framstigum, 10 burpees og 20 kviðæfingu. Duglega ég! :D

Í kvöldmatinn skellti ég í Ítalska heilsusúpu af Heilshugar
http://heilshugar.com/?p=725

  • 1 msk olía
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1/2-1 rauð papríka
  • 1/2 sæt kartafla (ca. 300 gr)
  • 4-5 sveppir
  • 2 msk grænmetiskraftur (við notuðum frá Sollu)
  • 1 líter vatn
  • 3 msk þurrkað oregano
  • 50 gr heilhveiti pasta (má sleppa)
  • salt og pipar eftir smekk…
Steikið hvítlauk og papríku uppúr olíu í potti.
Bætið við kartöflu og sveppum og steikið í stutta stund. Bætið við vatni ásamt kryddi. Látið sjóða smá stund og maukið síðan með töfrasprota Bætið pastanum við og sjóðið með (eða sjóðið pastað í öðrum potti til hliðar til að flýta fyrir). Saltið og piprið eftir smekk.
Ég maukaði ekki grænmetið en það kom ekki að sök, var súper góð! :D

Ég og Aron eyddum svo smá tíma í að setja saman nesti fyrir daginn í dag, bjuggum til kúllasalat til að hafa í hádegismat! Mega nice.


Mánudagur .. 
Hafragrautur í morgun eins og vanalega .. henti svo í ávaxtasmoothie til að taka með í nesti.
Skóli og ræktin allt í bland í dag!

Gerði svo heiðarlega tilraun til að borða eggjaböku í kvöldmatinn ..
  Jibb hún lúkkar asskoti vel .. EN ég kem svona eggjabökum engan veginn ofaní mig! Ég er ennþá með klígju :(
Sem betur fer fýlar Aron svona bökur svo hann borðaði hana með bestu lyst en ég þurfti að fá mér súpuafganga í staðin fyrir bökuna.

Ég datt inná þessa grein í dag um hveitikím og hörfræ .. mæli með því að þið skoðið hana! Klárt mál að þessar fæðutegundir verða ofarlega á listanum framvegis!

http://pjattrofurnar.is/2013/01/14/heilsa-af-hverju-eru-horfrae-og-hveitikim-svona-god-fyrir-okkur/

Saturday, January 12, 2013

Dagur # 11

Byrjaði daginn á nýju prógrami í ræktinni sem Telma þjálfari lét mig fá .. freeekar massíft en geggjað skemmtilegt! :D
Skellti mér svo í sund með múttu, gumma og systkinum mínum og synti þar 1 km .. einhver voða orka í kjéllu í dag!
Fórum svo saman á Saffran þar sem við fengum okkur hádegisverð! Maður er alltaf að hafa áhrif sjáiði til ;)
Fór svo með systkini mín í Skemmtigarðinn í Smáralind þar sem að við höfuðm það gaman í sirka 2 og 1/2 tíma. Þetta var jólagjöfin þeirra frá mér .. er hætt að nenna að gefa þeim dót sem endar bara brotið á gólfinu því ákvað ég að gefa þeim bara minningar!
Þau eru svo að fara að gista hjá mér í kvöld .. ekkert jafnast á við sófakósý með systkinum sínum (þau eru 6 og 11 ára ef einhver var að velta því fyrir sér)

Það var ákveðið að hafa tortilla í kvöldmatinn .. þá var bara næst á dagskrá að prófa að baka grófar tortilla-kökur og hvað haldið þið? gekk bara eins og í sögu og stærsti sigurinn var sá að bróðir minn, 11 ára sagði að þær væru bara alveg ágætar og kærastinn sagðist aldrei hafa borðað eins gott tortilla á ævinni! :D jeijj .. þetta er það sem skiptir MESTU máli!

Ég notaði uppskrifina hennar Ebbu í Latarbæjarbókinni en notaði heilhveiti í staðin fyrir gróft spelt.

Innihald;
5 dl grófmalað spelt (ég notaði sama magn af heilhveiti)
2 msk semsamfræ (má sleppa) .. ég átti þau ekki til svo ég sleppti þeim
1 tsk sjávarsalt eða himalajasalt
1/2 dl kaldpressuð ólífuolía
150-175 ml heitt vatn.

Þurrefnunum mixað saman, olíunni bætt útí og soðna vatninu líka. Hrært saman og hnoðað örlítið. Degið er svo rúllað upp í pyslu og hún skorin í 8-10 bita. Ég náði 8 sæmilega stórum kökum úr mínu degi.
Kökurnar svo bakaðar á pönnu við frekar háan hita í 30 sek á hvorri hlið.


Litlar hendur að hjálpa mér :)

Ég þarf samt að fara að borða minna af svona brauðmeti ef ég ætla að ná þessum blessuðu 13 kg af mér! :)

Friday, January 11, 2013

Dagur # 9 og # 10

Kvöldmaturinn!!
 Namm hann var svooo góður. 

 Kjúklinga-jalapenjó buff 
(af síðunni heilshugar.com)

  • 2 kjúklingabringur eða uþb. 400 gr
  • 40 gr jalapeno úr dollu (svona niðursoðið) (Verður svoldið sterkt…
  • 150 gr 11% ostur rifinn (alveg örugglega nóg að nota 75-100 gr)
  • Kryddað að vild, við notuðum, salt, pipar, papríka og kóríander…
Kjúlli hakkaður í matvinnsluvél tekin úr og settur í skál. Jalapeno skorinn smátt og bætt útí ásamt rifnum osti og kryddi. Öllu blandað vel saman og mótað í 5-6 buff.
Eldað í ca 10 mín á heilsugrilli eða pönnu.

Heimatilbúið Guacamole
 2.stk avocado
Safi úr 1 sítrónu (alveg nóg að taka safa úr 1/2 sítrónu)
2-3 rif hvítlaukur
1/2 tsk salt
1/8 chilipipar eða cayenne pipar
1/8 tsk svartur pipar
AB mólk .. notaði hana til að þynna og gera þetta meira sósulegt, veit ekki hvað ég notaði mikið.

Öllu mixað saman.







Þetta var ekkert smá vel heppnað og yndisleg nýjug í Drea's Kitchen ;) mæli eindregið með því að þið prófið þetta!

Annars er ég búin að eiga nokkuð erfiða daga. Það er drullu erfitt að koma þessu öllu fyrir í rútínu en það SKAL hafast!

Ég er búin að vera að hugsa svolldið útí þetta sykurdót .. það er auðvitað nánast ekkert mál að taka út hvítt hveiti en þessi fokking sykur er að gera mig bilaða! Hann leynist alls staðar og hann heitir öllum ótrúlegum nöfnum. Ég datt inná grein hjá Café Sigrún .. þar var hún að tala um sykur og ritaði þessa fleygu setningu "Fyrir fólk sem er að taka út sykur í mataræði sínu er líklega auðveldara að telja sandkorn í eyðimörk Sahara)." (hér er pistillinn í heild sinni). Þessi setning sló mig svolldið því fyrir neðan taldi hún upp alls konar nöfn yfir sykur .. margt af þessu hef ég ALDREI heyrt áður.
  • barley malt
  • beet sugar
  • brown sugar
  • buttered syrup
  • cane-juice crystals
  • cane sugar
  • caramel
  • carob syrup
  • corn syrup
  • corn syrup solids
  • date sugar
  • dextran
  • dextrose
  • diatase
  • diastatic malt
  • ethyl maltol
  • fructose
  • fruit juice
  • fruit juice concentrate
  • glucose
  • glucose solids
  • golden sugar
  • golden syrup
  • grape sugar
  • high-fructose corn syrup
  • honey
  • invert sugar
  • lactose
  • malt syrup
  • maltodextrin
  • maltose
  • mannitol
  • molasses
  • rapadura
  • raw sugar
  • refiner's syrup
  • sorbitol
  • sorghum syrup
  • sucrose
  • sugar
  • turbinado sugar
  • xylitol
  • yellow sugar
Það er auðvitað ekki fræðilegu möguleiki að ég geti verið að eltast við svona margar sykurtegundir. Takmarkið mitt er að lifa lífstíl sem inniheldur sem minnstan sykur. Ég yrði bara geðveik ef ég myndi taka þetta alla leið og borða ENGAN sykur .. ég þyrfti bara að vera heimavinnandi því ég þyrfti að vinna allan matinn minn bara sjálf.

Að vera meðvitaður um hvað maður lætur ofaní sig og velja alltaf hollari kostinn er númer 1, 2 og 3

Wednesday, January 9, 2013

Dagur # 8

Mikið svakalega er erfitt að drattast frammúr á morgnana .. ég er eins og litlu krakkarnir. Það þarf að draga þau frammúr á virkum morgnum svoo erfitt að vakna en svo spretta þau frammúr fyrir allar aldir um helgar. Ég er forrituð svona nokkuð eins, mig langar helst bara að sofa allan morguninn í staðin fyrir að fara frammúr en svo um helgar þegar ég get sofið þá finnst mér eins og ég sé að missa af einhverju og vil ekki sofa! Já þetta er frekar skrítið!

Þið eruð þá kannski búin að átta ykkur á því að ég fór s.s frammúr á síðustu stundu í morgun og fékk ég þá bara epli í morgunmat :(

Var í gati í skólanum í dag og skellti mér í 45 mín spinning í Laugum .. shitturinn það var erfitt og í þau skipti sem ég hef haldið því hér fram að ég væri að svitna eins og motherf*** þá var það ekkert miðað við hvað ég svitnaði í dag!
Svitinn í dag fékk mig til að hugsa hvort ég sé nokkuð að drekka nógu mikið vatn .. drekk örugglega alltof lítið sem útskýrir kannski semi-hausverkinn sem ég fæ á kvöldinn hmm ...

Ég hugsaði líka í dag að eftir að ég hætti þessu sykur-hveiti áti þá verð ég ekki eins svöng á daginn .. jákvætt
sem veldur því að ég gleymi stundum að borða .. neikvætt

Það voru bara saklausir afgangar í kvöld .. heilhveitipasta-grænmeti og kjúlli með smá 10% sýrðum rjóma útá til að bleyta þetta smá. Ef þið lumið á hollum sykurlausum dressingum og sósum endilega hendið á mig uppskriftum :)


Hún Telma sem er með Fitubrennsla.is ætlar að hjálpa mér að ná þyngdarmarkmiðinu mínu. Fer að hitta hana á föstudaginn og þá fer allt á fullt að tóna þennan blessaða líkama. Verður spennandi að sjá hvernig samstarfið heppnast .. en ég er mjög bjartsýn og jákvæð! :)

Tuesday, January 8, 2013

Dagur # 7

Heil og sæl ..

Ég stend enn teinrétt í fætur og stefni beinustu leið áfram! :)

Ég átti ótrúlega skrítinn morgun, var á milli svefns og vöku og endaði með því að sofa yfir mig .. og það á öðrum skóladegi FLOTT Andrea!
Þess vegna var spænt af stað með allt niðrum sig og ég rétt náði í skólann á "réttum" tíma .. missti þá allavegana bara af einum tíma. Útaf öllu þessu havaríi náði ég ekki að búa mér til morgunmat og var því tveimur bönunum troðið í smettið á sér í bílnum á leiðinni og skolað niður með Amino Energy .. GOD ég elska þennan drykk .. þar sem ég drekk ekki kaffi þá bjargar hann mér alltaf þegar ég er það þreytt að ég þyrfti helst tannstöngla til að halda augnlokunum uppi.

Eftir tímann í skólanum fór ég beint í ræktina s.s í stóra gatinu mínu og tók alveg andskoti vel á því í Tabata .. miiikill sviti.

Slarfaði svo í mig Tropical boosti með jarðaberjapróteini a la Café Laugar .. namm alltaf jafn gott. Svo var drattast aftur í skólann.

Eftir skóla þurfti ég svo að bruuuna í vinnuna og þar var ég til 22 í kvöld.

Ég borðaði með vinnufélögum mínum .. elduðum tortilla, basic! .. en þar sem ég vil ekki hvítt hveiti þá datt ég í taco skeljarnar .. eeeen þær eru gerðar úr óhollri fitu! Vegetable oil! eeeekki gott. Djöfull er þetta harður heimur!
Allavegana .. við keyptum kjúlla í Bónus, vorum að kaupa fyrir nokkuð stóran hóp af krökkum líka svo það var keyptur Bónuskjúlli en ég fékk það í gegn að keyptur yrði 100% kjúlli frá Holta-Kjúkling fyrir mig því bónusbringurnar eru sprautaðar með sykri o.fl
Ég tók það svo að mér í undirbúningnum fyrir matinn að skera allar þessar kjúklingabringur og það var fyrst þá sem ég áttaði mig á muninum á bringum með aukaefnum og hreinum bringum! Bónus-bringurnar eru svakalega slepjulegar og glansandi .. svolldið eins og hlaup en Holta-bringurnar eru miklu stinnari/þéttari og stamari.

Stundum þarf maður bara að sjá hlutina á svörtu og hvítu til að átta sig á þeim .. klárt mál að 100% kjúllabringur verða það sem ég vel framvegis.
Hvað ætlar þú að velja?

Þá er vika liðin af þessum nýja lífstíl og ég get ekki sagt að þetta sé eins erfitt og það leit út fyrir að vera í fyrstu. Þarf bara að vera dugleg að prófa nýjar uppskriftir og þannig taka þessi hænuskref að hollum - hreinum og heilbrigðum lífstíl - get ekki beðið! :D

Heyrumst á morgun .. adios! :)

Monday, January 7, 2013

Dagur #6

Jæja þá er fyrsti dagurinn í skólanum afstaðinn .. þetta verður eitthvað að reyna að pússla öllu saman, skóli, borða, vinna, borða, ræktin, borða, læra borða! Þessi önn á eftir að vera þrælmassíf en það virðist vera þannig að manni gengur oft betur þegar það er mikið fyrir stafni því þá skipuleggur maður sig betur en dettur ekki í einhverja leti.

Það var ræs kl 6:00 í morgun og hennt í hafragrautinn góða og enn er hann bara með möndlum! Svo einfalt og þægilegt.
Skólinn byrjaði svo kl 8 í morgun og var til rúmlega 15 með smá götum en auðvitað voru kennararnir bara að kynna áfangana hjá sér og því keyrslan ekki komin í gang.

Sem betur fer átti ég afgang frá kvöldmatnum í gær til að taka með mér sem nesti í skólann svo það heppnaðist mjög vel.

Skellti mér svo í Hot-Yoga seinnipartinn með henni Öddu vinkonu! Ég sveeeer það ég er eiginlega alveg 90% viss um að ég sé stirðasta kona sem finnst á þessu blessaða landi .. svo það er klárlega eitt af markmiðunum inní stóra markmiðinu að fara að hugsa meira um liðleikann og það er hvergi betra að gera það en í Hot-Yoga :D

Bruuunaði svo uppí Kjós í mat til múttu og co. en hún dúllu mamma mín er svo dugleg að styðja mig! Hún var búin að búa til eitthvað svaaaka bauna-lauks-papriku-tómata-hvítlauks-sellerís-tacoskelja-bombu með heimagerðu guacamole .. ekkert hvítt hveiti og enginn sykur! :) frábært að hafa sterkt bakland!

Ég er ekkert rosalega mikil bauna-kona (ekki ennþá allavegana) en þetta smakkaðist bara rosa vel en fyrir minn smekk myndi ég næst vilja minnka baunaskammtinn og fá mér kjúlla eða hakk með þessu. Einnig held ég að salsa-sósa hefði toppað þetta allt.

Mér finnst alveg hreint út sagt ótrúlegt hvað þetta er búið að ganga vel .. núna er ég búin að einbeita mér í 6 daga að því að venjast matarræði sem inniheldur ekkert hvítt hveiti og engan sykur .. næst á dagskrá er að samræma þetta við markmiðið að léttast um 13 kg með markvissum æfingum og hollum mat. Þótt að ég sé að taka út hvítt hveiti og sykur þá er samt alveg hægt að borða yfir sig af kaloríum .. þess vegna er ég að venja mig á í þessari viku að minnka matarskammtana, ég get verið soddan átvagl ;)

Hlakka til að halda áfram .. og ekki eruð þið að skemma fyrir sem fylgist með mér á hverjum degi! Þetta er bara frábært :D

Sunday, January 6, 2013

Helgin (dagur #4 & #5)

Helgin byrjaði svo sannarlega þrusuvel .. drattaðist frammúr kl 9 á laugardagsmorgninum og skellti mér í Buttlift! Það er náttúrulega bara ótrúlegt hvað hún Kristjbörg sem kennir tímann er mögnuð .. ég held að það hafi ekki verið dropi eftir af vökva í líkamanum eftir tímann .. harðsperrurnar eru líka svakalegar núna! ..

Skellti í mig uppáhalds próteinsjeiknum mínum eftir æfingu ..
200 ml mjólk
1 skeið súkkulaðiprótein
1 banani
4 frosin jarðaber
6 frosin hindber
Dass af grófu kókosmjöli
4 klakar
Mixað vel og vandlega í blandara .. smakkast eins og sjeik :-D

Fór svo og hitti vinkonur mínar og elduðum við alveg svakalega góða ítalska grænmetissúpu í hádegismat og það var auðvitað bragðað á fínu bollunum sem ég bakaði daginn áður *nommnomm*
Verð að fá uppskriftina af súpunni til að setja hérna inn fyrir ykkur!

Í kvöld eldaði ég gamla góða túnfisk-pasta-salatið mitt .. mjöög þægilegt þegar maður er kannski ekki í neinu svaka eldunarstuði.

Ég sýð þá bara eitthvað sirka magn af heilhveitipasta (ég elda samt alltaf of mikið .. það er eitthvað í genunum)
Sker niður allt það grænmeti sem mig langar í.
Set túnfisk útá, fetaost, fræblöndu og smá hvítlauks-jógúrtsósu!
Gæti ekki verið einfaldara :)

Það er smá kvíði í gangi fyrir næstu viku, þá byrjar skólinn og vinnan á fullu og það verður spennandi að sjá hvernig mér tekst að samræma þetta allt saman .. það verður örugglega erfitt til að byrja með en svo þegar rútínan er komin í gang þá á þetta vonandi bara eftir að rúlla :)

 Þangað til næst .. ;)

Friday, January 4, 2013

Dagur #3

Vá hvað hlutirnir eru búnir að vera fljótir að gerast .. 258 manns búnir að like-a facebooksíðuna hjá mér, 1843 flettingar á blogg-síðunni á einum sólahring og síðast en ekki síst er búin að birtast grein inná visir.is um þetta ferðalag mitt! Ekkert nema frábærir hlutir og ég hlít að vera búin að ná til einhvers þarna úti sem er farinn að velta fyrir sér hvað hann/hún er að setja ofaní sig.

Þriðji dagurinn byrjaði að sjálfsögðu á hafragraut, úr lífrænum grófum höfrum, og settum við möndlukurl útá hann enn á ný .. super nice! Ef þú ert ekki búin að prófa það þá skaltu prófa það í fyrrmálið.
Við kallinn ræddum aðeins um þessa hafra í morgun og vorum við alveg sammála um að þeir væru mjög bragðgóðir og léttari í sér heldur en þessir típísku Sol Gryn hafrarnir .. þeir verða miklu meiri klessa sem getur valdið klígju og uppgjöf hjá mörgum. Já ég nota ekkert salt í grautinn .. salt er ekki gott fyrir líkamann og þess vegna reyni ég að forðast það eins og ég get og hef gert það lengi, svo ferð það líka bara illa í mig.

  
Ég nota s.s þessa í hvíta pokanum. Ég er ekki að segja að þeir séu þeir einu réttu, ég keypti þessa gerð upphaflega því ég vildi gróft haframjöl (minna unnið) og svo skemmir ekkert fyrir að það sé lífrænt og þess vegna hreinni afurð. 

Ég skellti í bollur í dag eins og ég var búin að minnast á facebook-síðunni. Ég er að fara að hitta vinkonu-hópinn minn á morgun og við ætlum að elda saman í hádeginu ítalska grænmetissúpu og bauðst ég til að græja brauðmetið þar sem ég er nú byrjuð með sérþarfir :)
Ég valdi uppskrift af www.cafesigrun.com og hétu bollurnar því einfalda nafni "Góðar brauðbollur með öllum mat"

Innihald

  • 700 g spelti (ég notaði heilhveiti)
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 500 ml sojamjólk. Gæti þurft meira eða minna (ég notaði léttmjólk þar sem engin af okkur er með mjólkuróþol)
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 msk kókosolía
  • 2 tsk agavesíróp (vissulega sykur en hann er náttúrulegur og þetta var svo ósköp lítið magn)
 Ég blandaði svo við sólblómafræjum og skellti svo eggi+mjólk ofaná .. gamla góða trixið sem maður lærði í matreiðslu þegar maður var lítill.
 Skohh .. svo sætar og fínar og heppnuðust alveg þrælvel. Eiga eftir að smakkast svakalega vel með súpunni á morgun :)
 
Svooo má ekki gleyma kvöldmatnum .. jii minn að er ekki skrítið að ég hafi steinsofnað eftir kvöldmat eftir allan þennan bakstur.
Ég skellti í föstudagspizzu fyrir okkur skötuhjúin og notaðist ég við uppskrift úr Latarbæjarbókinni hennar Ebbu (þessi ótrúlega kona ætti nú að vera bara fyrirmynd allra)
Föstudagspítsa

Innihald:
250 g spelt (enn og aftur notaði ég heilhveiti)
3 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 - 1 tsk sjávarsalt eða himalajasalt
1-2 tsk óreganó (má sleppa) (ég notaði pizzakrydd)
2 msk kaldpressuð ólífuolía
130 - 140 ml heitt vatn.

Heppnaðist líka svona rosalega vel.

Ég setti á mína pizzu:
  • kjúklingaálegg (rifið niður í strimla)
  • sveppi
  • Sweet-chili philadelphia rjómaost
  • spínat
  • smá fetaost
  • og auðvitað pizzasósu og rifinn ost.
Ógeðslega gott og alveg frábær pizzabotn! Og viti menn þetta féll meira að segja í góðan farveg hjá hinum helmingnum og hann heimtar þetta meira að segja aftur sem fyrst! SCORE ;)

Nú eru eflaust einhverjir að velta fyrir sér afhverju notar þú ekki spelt? Það er bara einfalt svar við því og er það að ég er ekki búin að kynna mér það nóg til að vera búin að meta hvort að það sé betra eða verra, eins og staðan er í dag tel ég heilhveitið vera alveg jafn gott en við skulum sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

Afhverju vínsteinslyftiduft?
Já ég velti þessu einmitt fyrir mér líka ..
Vínsteinslyftiduft er búið til úr vínsteini, natríum karbónat, og maísmjöli. Það er því glútenlaust (ekki drýgt með hveiti) og án snefilefna út járni sem eru talin óæskilegt fyrir líkamann. Vínsteinslyftiduft má nota í allan bakstur í stað venjulegs lyftidufts í sömu hlutföllum. Vínsteinn er náttúrulegt salt sem myndast innan í víntunnum þegar berjasafinn hefur gerjast.
- úr bókinni Hollusturéttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur

Þegar fólk ætlar að breyta uppskriftum sem innihalda ger og nota vínsteinslyftiduft í staðinn eru hlutföllin ein og hálf matskeið vínsteinslyftiduft á móti einni matskeið af geri.
Svo er gott að bæta við einni til tveimur teskeiðum af sítrónusafa til að líkja eftir gerbragðinu.
1 msk. ger = 1 ½ msk. vínsteinslyftiduft + 1 - 2 tsk. sítrónusafi.
- www.heilsubankinn.is
Þar höfum við það .. :)

Thursday, January 3, 2013

Dagur #2

Dagur 2 byrjaði ekkert sérlega vel .. ég var andvaka nánast alla nóttina og náði ekki að festa almennilega svefn fyrr en eftir að ég var búin að reka betri helminginn til vinnu um 8 leytið. Sem BETUR fer var ég svo heppin að skólinn er ekki byrjaður og ég þurfti ekki að mæta til vinnu fyrr en eftir hádegi. Ég veit ekki hvað olli þessari andvöku .. kannski var það bara spenningurinn yfir allri þessari lífstílsbreytingu :)

Ég byrjaði svo daginn á hafgragrautnum góða og nota ég í hann lífrænt gróft haframjöl sem ég fann í Krónunni, sýð það svo uppúr dass af vatni og dass af mjólk. Í dag prófaði ég svo nýtt .. ég setti muldnar möndlur útá og var það alveg þrælgott og minnti mig oggu ponsu á jólagrautinn góða.

Áður en ég fór til vinnu bjó ég til þennan græna & væna sem kom skemmtilega á óvart .. sá mynd af einum slíkum á instagram hjá henni Kötu klipp eins og ég kýs að kalla hana og ætla því ekki að taka neitt credit fyrir hann, en hvet alla til að prófa .. hann er mega fresh.

Uppskrift:
1 grænt epli (flysjað og kjarnhreinsað)
1 lúka spínat
1 dós ananas (með safanum) .. (læt það liggja milli hluta hvort að ananasinn hafi verið niðursoðinn í sykurvatni en það kom ekki fram á dósinni sem ég notaði)
Dass af kókosflögum/kókosmjöli
Nokkrir klakar
Sé það núna þegar að ég er að fara yfir þetta aftur að ég gleymdi engiferinu .. iss það verður bara prófað næst :)

Fór svo út að borða með vinnufélögum í kvöld, fyrir valinu var Ruby Tuesday. Maður fær auðvitað alltaf einhver komment á það þegar maður breytir matarræðinu "en hvað mátt þú borða?" "getur þú borðað þarna?" o.s.frv en þar sem að þetta er mín lífstílsbreyting þá er ég ekki að troða henni uppá aðra og verð ég bara að aðlaga henni að mínu lífi. (ekki misskilja mig, vinnufélagar mínir eru súper supportive). Ég fletti matseðlinum á Ruby og að sjálfsögðu voru allskonar réttir sem ég slefaði yfir .. endalaust af pastaréttum sem ég ELSKA en ekkert heilhveitipasta :( brjálæðislega girnilegir hamborgarar en enginn í heilhveitibrauði :( .. fyrir valinu var kryddleginn ýsa, borin fram með bakaðri kartöflu og brokkolíi .. já maður getur alltaf fundið eitthvað sem tilheyrir lífstílnum (nema kannski á KFC). Ég ætla ekkert að ljúga, mig langaði ógeðslega í hvítt pasta og ógeðslega girnilega súkkulaðiköku í eftirrétt en þetta er bara spurning um að toga sig aftur á jörðina, í raunveruleikann og þylja upp fyrir sjálfum sér afhverju mig langar EKKI í þessa rétti. Þegar ég hugsa um þetta svona eftirá þá hljómar þetta svolldið eins og Gollum í Lord of the Rings og The Hobbit .. fyrir þá sem hafa séð það, vondikallinn reynir alltaf að fá sínu fram en þá er bara að passa að styrkja góða kallinn þangað til að hann hefur vinninginn

Jæja þetta er nú bara komið útí einhverja vitleysu hérna .. 

Wednesday, January 2, 2013

Dagur #1

Já .. ég hef ákveðið að blogga um lífstílsbreytinguna mína árið 2013. Aðal markmiðið fyrir þetta ár er að missa 13 kg og stefni ég á að gera það fyrir 12.júní 2013. Í kjölfarið hef ég ákveðið að útrýma hvítu hveiti og sykri til framtíðar. Ég hef verið að lesa mig til í bókinni "Skinny chicks eat real food" eftir Christine Avanti og er þessi bók hrein og bein snilld. Ég mun vitna í þessa bók í gegnum mitt ferli að lífstílsbreytingu þar sem stefnan er sett á að byrja og læra að borða HREINT! .. og útrýma "verksmiðjumat"


Ástæðan fyrir því að ég ætla að halda úti bloggi/dagbók um þetta ferðalag er að ég verð að hafa þetta opinbert .. bæði til að fá hvatningu frá ykkur sem nennið að fylgjast með þessu ásamt því að ÞURFA að halda þetta út! Ef ég hefði haldið þessu fyrir mig sjálfa þá hefði þetta markmið fallið um sjálft sig eins og flest öll markmið sem ég hef sett mér. Ég hef aldrei verið í íþróttum svo ég er ekki með örlítinn vott af keppnisskapi í mér og svo elska ég sjálfa mig svo óendanlega mikið að ég er ALLTOF góð við sjálfa mig og leyfi mér allt (þótt eftir á að hyggja er ég ekkert góð við mig .. því ég hef leyft mér að lifa óheilbrigðum lífstíl alltof lengi)

Ég vona að þú hafir gaman að lestrinum .. og svo er aldrei að vita nema að einhverjir af þeim fræðslumolum með detta hér inn munu hálpa þér líka :)

Þá skulum við byrja þetta:
Í dag er formlega fyrsti dagurinn og byrjaði ég hann á því að elda mér hafragraut og skella mér svo á æfingu í 1 1/2 tíma. Þegar ég kom heim var farið beint í skápana og skóflað út úr þeim ÖLLU sem inniheldur hvítt hveiti eða sykur .. ég get sagt ykkur það að það er ekki mikið eftir í þessum blessuðu skápum! Þá var bara næst á dagskrá að fylla þá af hollum og næringarríkum, hreinum mat!

(þessir tveir ruslapokar voru ekki einu sinni allt)

 Í búðinni þurfti ég svo að brjóta heilann hvað ég gæti eldað í kvöldmatinn .. það er jú alveg ótrúlegt hvað maður innbirgðir oft ómeðvitað fullt af sykri og hveiti!
Fyrir valinu var hakkaður kjúlli, steiktur í hvítlauk og blaðlauk og sætar kartöflur með. Þessu var síðan öllu troðið inní kálblað og smá salsa-sósa með. VERY GOOD! :)

 (kannski smá aumingjalegt á myndinni en ég fór södd frá borði)

Fyrsti dagurinn er því búinn að ganga áfallalaust fyrir sig en það eru óteljandi dagar eftir þar sem takmarkið er að gera þetta að lífstíl en ekki "megrunarbólu".

Sem betur fer er ég full af eftirvæntingu og spennu en ekki kvíða! ..

Þangað til næst ..